Fastheldinn Skagafjörður

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem gerir Skagafjörðinn svona fastheldinn á sitt fólk eins og mér sýnist hann hafa verið og vera enn í dag. Fólk sem er þar fætt og uppalið á ákaflega erfitt með að færa sig um set en þegar það gerist eru tengslin til baka sterkari en naflastrengur.

Ætt mín þar er tiltölulega stór. Faðir minn er einn ellefu systkina er á legg komust á Frostastöðum í Blönduhlíð á síðustu öld. Eitt þessara ellefu systkina flutti úr héraðinu, elsti bróðirinn, og hann flutti aftur heim á efri árum. Móðir mín er úr hópi sjö barna en í þeim hópi fluttust tvö í burtu en tengslin hjá þeim heim er eins farið og ég lýsti áður.

Það sem meira er hlýt ég að telja að sé, nú á tímum heims án landamæra er að tiltölulega mörg systkinabörnin eru einnig búsett í Skagafirði.

Eina aðalskýringuna á þessu held ég að móðir mín hafi komið með síðast þegar við keyrðum niður af Vatnsskarðinu og sáum yfir héraðið. "Mikið ákaflega er þetta fallegt hérað" sagði hún og átti þá við það í sínum víðasta skilningi. Það er nefnilega aðeins öðruvísi að koma í Skagafjörð af Vatnsskarðinu heldur en annars staðar á landinu. Þú hefur sýn á nær allt héraðið og útverði þess, Glóðafeyki, Tindastól, Mælifellshnjúk, Drangey og þar fram eftir götunum. Þú fyllist einhverju óútskýrðu og samsvarar þig jörðinni, moldinni, loftinu og ekki síst vatninu í héraðinu. Ég er nefnilega alinn upp í vatni að því að mér finnst, í miðju héraðinu í Héraðsvötnunum, milli vatna og allar gjörðir dags daglega fólu í sér náin kynni af þessu mikla vatnsfalli.

Kannski skýrir þetta að einhverjum hluta velgengni KS, hver veit.

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hélt reyndar að aðeins 3 eða 4 systkini hefðu verið fædd þegar flutt var frá Frostastöðum yfir í Holt... Þannig að líklega komust þau á legg þar, ekki satt

Gunna (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 13:59

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sammála, það er fallegt í Skagafirði.

Ásdís Sigurðardóttir, 23.6.2007 kl. 14:06

3 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Já það mjög fallegt þar.

Kristín Katla Árnadóttir, 23.6.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband