12.4.2007 | 11:16
Enn um skoðanakannanir
Ég hef áður lýst skoðun minni á fjölda og notkun skoðanakannana nú í aðdraganda kosninga og finnst þar eitt og annað mega vera öðruvísi.
Á hinn bóginn er ég algjörlega sjúkur í tölur og finnst heimur talnanna vera ákaflega skemmtilegur. Skoðanakannanirnar gefa manni tækifæri til að ástunda það áhugamál að leika sér að tölum og reyna að lesa þær eftir þeim hugargæðum sem manni er gefið í vöggugjöf.
Núna hef ég verið að bera saman og skoða kannanir í Suðurkjördæmi, annars vegar könnun Capacent-Gallup og hins vegar könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Stöð 2. Sú fyrri er síðan í byrjun apríl en sú síðari var birt í gærkvöldi.
Fyrst skoðar maður hvaða misræmi er á milli þeirra en það er nokkuð. Hreyfing er á fylgi allra flokka á milli þeirra. Framsókn er ríflega 2% hærri í gær, Sjálfstæðisflokkur er 4,5% lægri í gær, Samfylking er 8,7% hærri í gær, VG er 4,9% lægri í gær, Frjálslyndir 1,7% lægri í gær og Íslandshreyfingin er 1,4% lægri í gær. Þegar ég segi í gær á ég við könnun Stöðvar 2. Hreyfingar á fylgi Framsóknar, Frjálslyndra og Íslandshreyfingarinnar eru innan vikmarka held ég alveg örugglega eða í það minnsta nálægt því. Mikil breyting er hins vegar á fylgi Samfylkingar og nokkur breyting hjá Sjálfstæðisflokki og VG.
Það næsta sem maður hugsar er síðan forsendur og útreikningar í könnunum eins og til dæmis hvað var úrtakið stórt, svarhlutfall og hve margir tóku afstöðu en það gefur manni smá mynd af áreiðanleika. Svo skoðar maður vikmörk ef maður kemst í þau. Ég vil fá sem mestar upplýsingar með könnunum einmitt til að geta metið áreiðanleika þeirra.
Ég hef síðan alltaf haldið því fram að erftitt sé að fá góða mynd í landsbyggðarkjördæmunum vegna þess hve fylgi flokkanna getur verið staðbundið. Það var komið aðeins inn á þetta hjá RÚV í Norðvestur kjördæmi í gær þar sem þetta var aðeins rætt.
Það gæti verið áhugavert rannsóknarefni fyrir aðferðafræði pólitískra skoðanakannana á Íslandi að komast að þessu sem og að finna hinn, að því að virðist, "fasta bias" í könnunum að Sjálfstæðisflokkurinn virðist oftast fá lakari útkomu á kjördag en í könnunum og Framsóknarflokkurinn fær nánast alltaf betri útkomu á kjördag en í könnunum.
Þetta er svona það helsta í þessum efnum í dag en ég hef komið mér upp ágætis heimatilbúnu reiknilíkani (excel) til að leika mér að þessum tölum og prósentum. Auðvitað til gamans og algjörrar tímaeyðslu og á skjön við þá skoðun mína að kannanir spili of stóran sess í kosningaumræðunni nú um stundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.