Stjórnmálaástandið í dag

Nú er um nokkuð liðið síðan ég fjallaði eitthvað um ástand stjórnmálanna eins og það blasir við mér. Kannski finnst öllum það í lagi en auðvitað læt ég það ekki á mig fá því eins og sagt er svo oft hér í þessum heimi, mín síða-mínar reglur (sumir eru reyndar mun alheimssinnaðri heldur en ég og slá um sig með útlensku og nota þá gjarnan "my way or the highway" en ég fell ekki í það ég er svo þjóðlegurSmile).

Ég hef áður rætt ástandið út frá skoðanakönnunum og mun gera það áfram. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að í þeim sé skekkja, mismikil reyndar eftir því hver framkvæmir kannanirnar og á hvaða tíma. Eins vil ég halda því fram að skoðanakannanir í landsbyggðarkjördæmunum þremur séu mun óáreiðanlegri heldur en í höfuðborgarsvæðiskjördæmunum þremur. Fylgi flokkanna er nefnilega að dálitlum hluta staðbundið á landsbyggðinni, svona eins og staðbundið veðurfar fyrir þá sem slíkt gerst þekkja. Kannanir ná aldrei, að mínu mati, utan um slíkt. Það er einfaldlega ógjörningur því þá þyrfti að hafa í huga alls konar staðbundnar breytur sem einu sinni eru ekki öllum kunnar. Þannig er nú það.

Fólk í kringum mig veit mína stöðu í stjórnmálum og nokkuð margir ræða stjórnmál við mig yfirleitt. Flest er það fólk í landsbyggðarkjördæmunum en reyndar nokkuð dreift um þau. Ég tel mig reyndar ekki vera með stóra sannleik í þessu frekar en öðru en ég held að einhverjar vísbendingar sé þó að finna, líkt og með skoðanakannanirnar. Að þessu hef ég vikið áður t.d. með inngöngu Kristins H. í Frjálslynda flokkinn.

Undanfarið hef ég fundið þrennt aðallega á viðmælendum mínum og það viðkemur þá þremur stjórnmálaflokkum.

Fyrst er þar að nefna minn eigin flokk, Framsóknarflokkinn. Niðursveifla hans hefur verið öllum ljós síðustu misseri og ljóst var orðið að eitthvað var orðið bogið við hlutina. Nú fór það svo eins og allir vita auðvitað að fyrrverandi formaður flokksins tók þá ákvörðun síðasta sumar að axla ábyrgð sína varðandi fylgistap flokksins í sveitarstjórnarkosningunum (já ég stend við þetta, þú mátt hafa þína skoðun (þá er hún bara röngDevil)). Jón var kosinn nýr formaður og hefur hann unnið vel í málum flokksins síðan. Einhverjum hefur þó fundist hann vera full lítið áberandi og farið hægt af stað, jafnvel mér. Staðan núna er þó sú að eftir flokksþingið hefur heldur færst fjör í hlutina og mjög jákvæð viðbrögð hef ég fengið í hans garð sem og flokksins, enda tel ég að stærsta fréttin af flokksþinginu var sú sem ekki var sögð í fjölmiðlum heldur hver og einn flokksmaður gekk með á sínar heimaslóðir. Ég hef heyrt í nokkrum mönnum sem voru orðnir afhuga flokknum en eru nú að snúa sér til hans aftur.

Í annan stað hef ég fundið fyrir því að fólk, sem hefur stutt Samfylkinguna og er Samfylkingarfólk frá upphafi vega (eða stofnun hennar) er orðið hálf ráðvillt satt best að segja. Því fellur illa að sjá hvernig flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum undanfarið og leita skýringa á því, eðlilega. Því finnst að vígstaðan ætti að vera sterkari og tala um að tækin séu til staðar en þau séu ekki nýtt og það að þau séu ekki nýtt sé hægt að herma upp á flokksforystuna. Það á einnig erfitt með að kyngja því að það virðist ekki vera um heilt gróið í flokknum frá formannskjörinu um árið. Einn gekk svo langt að segja að aldrei hafi verið bornar jafn miklar væntingar til tilvonandi formanns og aldrei verið eins lítil innistæða fyrir því. Stór orð, en ég fullvissa ykkur um að þau eru ekki mín þannig að það þýðir ekkert að koma með einhver eineltisskot á mig (ég veit hvernig það er og það þýðir ekkert að senda þau skot á mig). Aðrir tala um óeiningu og það sé eins og "norður" þingmennirnir séu ekki í flokknum til annars en fylla upp í töluna.

Þriðja og síðasta tilfinning mín í kjölfar samtala minna er um Steingrím J. Sigfússon og Vinstri Græna (ég tek það fram að ég gisti hjá tveimur öfga Vinstri Grænum þegar ég var á flokksþinginu og þeir létu mig hafa minna pláss en fangaklefa, 1,5m2 herbergi (og lásu yfir öxlina á mér þegar ég var í tölvunniHalo)). Einn nefndi við mig utandagskrárumræðu um þjóðlendumálin í þinginu um daginn og fannst flokkurinn ekki standa sig þar. Mælti í framhaldi af því að þetta væri eiginlega að verða argasti þéttbýlisflokkur sem þyrði ekki að standa á sannfæringu sinni. Önnur atriði en þjóðlendur voru þarna að baki auðvitað líka.  Einnig hef ég heyrt í samtölum að mönnum líki illa að sjá hjá sínum flokki sífellt meiri öfgar, bæði í málflutningi og tillögugerð. Þá hafði einn, sem fallin var frá stuðningi við VG þau orð um formanninn að hann væri eiginlega í fasi öllu orðinn einræðisherralíki.

Það sem ég held síðan hér í lokin, að komi til með að breyta stjórnmálaástandinu þangað til ég skrifa minn næsta pistil um það, eru nokkur atriði. Og tek ég þau stuttlega saman hér á eftir.

Fyrst ber þar að telja kosningarnar í Hafnarfirði varðandi deiliskipulagið varðandi stækkun álversins þar. Á hvorn veginn sem sú kosning fer held ég að hún komi alltaf til með að hafa neikvæð áhrif á Samfylkinguna. Verði hins vegar tillagan samþykkt held ég að það hafi neikvæð áhrif á fylgi VG. Undarlegt? Held ekki, mitt mat. kosningar þessar hafa ekki raunveruleg áhrif á fylgi annarra flokka.

Í öðru lagi fer að kastast verulega í kekki á milli Samfylkingar og Vinstri Grænna á næstunni. Þingið er að klárast fljótlega og þá þarf ekki að hafa neina háttsemi vegna starfa þar. Ekki að það hafi alltaf verið svo sem. Samfylkingu rennur það ákaflega til rifja að sjá VG sem stærri flokk í könnunum og þar með að missa jafnvel af forsætisráðherrastól í kjölfar kosninga. Þetta á sér reyndar lengri og dýpri rætur vegna átaka Alþýðuflokks og Alþýðubandalags á síðustu öld.

Það þriðja og síðasta tel ég vera að áhrif Jóns Sigurðssonar og mörkunar hans á Framsóknarflokkinn fari að segja til sín næstu vikur og á þann veg að fylgið sígi hægt og rólega upp á við á næstunni. Ég er ekki að tala um stór stökk heldur rólega en samt upp á við.

Það held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Þakka þér fyrir að deila áliti þínu á notkun orða með mér. Þakka þér einnig fyrir að gefa mér þennan bullstimpil. Held samt í alvöru að þú lesir ekki mikið ef þú hefur ekki séð annað eins bull lengi. Samt sem áður er þetta hugsanir settar fram eftir samtöl við einstaklinga og þá getur þú í raun verið ósammála en að kalla þetta bull þarfnast nú frekari raka við hefði ég haldið.

Ragnar Bjarnason, 13.3.2007 kl. 21:27

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Hef tröllatrú á skynsemi meirihluta kjósenda og því trúi ég að ríkisstjórnin haldi velli
í vor. Annars blasir bara við STÓRT STOPP í efnahags- og þjóðfélagsmálum, ekki síst
ef afturhalds-sósíalistanir í Vinstri-grænum komast í oddaastöðu.

Framsóknarflokkurinn þarf nú að taka sig tak og leggja sín góðu 12 ára ríkistjórnarspil
á borðið. Þjóðin hefur ALDREI farið í gegnum eins mikið framfara- og hagvaxtaskeið og
einmitt á þessum tíma. Framsóknarmenn verða nú að vera dugleigir að benda  á
þetta og svo það hvaða stöðnun, eymd kreppa og  volæði er í boði komist hin
sundraða  stjórnarandstaða til valda með öfgasinnuðum vinstriflokki í oddaaðstöðu.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 13.3.2007 kl. 21:40

3 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Sveinn minn. Ég segi það sem mér finnst hér á síðunni. Þetta innlegg er mínar hugsanir, það sem ég hef fram að færa, eftir samtöl við aðra. Það eru ekki kjaftasögur. Fólk er að segja mér hvað því finnst sjálfu. Einfalt.

Ragnar Bjarnason, 13.3.2007 kl. 22:49

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Sígandi lukka er best!

Vilborg Traustadóttir, 13.3.2007 kl. 23:14

5 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Já takk Vilborg. Svo er sagt og ég trúi því. Mín persónulega lukka er þannig og það líkar mér.

Ragnar Bjarnason, 13.3.2007 kl. 23:26

6 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Sveinn. Þessi setning sem þú klipptir út og afritaðir var kaldhæðni og þá líklegast léleg fyrst hún var tekin svona út hjá þér. Orðnotkun getur verið svæðisbundin eins og þú líklegast veist þannig að ég leyfi mér að nota orðið síga eins og ég geri í minni grein. Ofuráhersla þín á það breytir engu enda set ég ekki út á þína stafsetningu eða orðnotkun. Ég held ég hafi aldrei bannað þér að hafa þínar hugsanir um framsóknarmenn og ég banna þér ekki að segja þínar hugsanir hér nema um sé að ræða skítkast. Í lokin árétta ég það að ekki er um kjaftasögur að ræða samkvæmt þinni skilgreiningu því þetta er ekki eitthvað sem ég hef búið til sjálfur og lýg svo til að þetta hafi komið fram í samtölum við fólk. Ég þarf þess ekki.

Ragnar Bjarnason, 14.3.2007 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband