Stjórnmálaástandið í dag

Smá hugleiðing sem ég ber með mér síðan í gærkvöldi og kviknaði í framhaldi bókalesturs, eins og svo oft áður.

Stundum er talað um að hlutirnir gangi í hringi og sömu aðstæður komi fram með reglulegu millibili. Ég get séð, með góðum vilja, að stjórnmálaástandið í dag virðist ekki vera neitt voðalega frábrugðið því landslagi sem var í aðdraganda alþingiskosninga árið 1987. Reyndar með pínulítið breyttum formerkjum þó.

Sjálfstæðisflokkurinn fór í sögulegt lágmark að því að mig minnir og var það auðrekjanlegt til sérframboðs Alberts heitins Guðmundssonar í formi Borgaraflokksins sáluga. Í þessu legg ég nokkuð að jöfnu væntanlegt framboð Margrétar Sv. (þá í formi vinar litla mannsins vonandi þannig að samlíkingin verði sem sönnust) og að það framboð höggvi stærstu skörðin í Sjálfstæðisflokkinn. Nokkuð hefur dregist á langinn hjá Margréti að koma með sitt framboð þanning að það endar líklega á að vera á svipuðum tíma á ferðinni og Borgaraflokkurinn var á sínum tíma. Gæti reyndar verið að Margrét Sv. sé að ná kvennalista yfirbragði á sitt framboð í viðbót.

Framsóknarflokkurinn var í þónokkurri vörn gegn hörðum árásum jafnaðarmanna (Alþýðuflokksins eða hvað menn vilja kalla það, og þá aðallega Jóns Baldvins). Ég sé reyndar ekki að JBH sé að koma inn aftur en það er önnur saga. Þessar árásir koma í dag aðallega frá ákveðnum væng Sf. en þó er Steingrímur J alltaf jafn örlátur á sínar glósur Framsókn til handa (virðist hafa sérstaka ánægju af árásum á Valgerði Sv. en lílega er það bara hin rammróttæka femíníska taug hans, sem ræður ríkjum varðandi það). Framsókn í dag er reyndar verr stödd en þá og segir manni það að þessar árásir virka eitthvað.

Samfylkingin er í dag á góðri leið með að vera með gott Alþýðuflokksfylgi eins og það gerðist best þá en er auðvitað óásættanlegt fyrir Sf nú um stundir eins og margir hafa verið til að benda á. VG er þá auðvitað gamli vinstri róttæki flokkurinn sem lungann af síðustu öld var stærri en jafnaðarmannaflokkurinn, í hvaða formi sem hann nú var.

Frjálslyndir hafa þá það hlutskipti nú um stundir að vera á leið til brotthvarfs úr pólitísku litrófi þó líklegast nái hann að lifa kosningarnar af og þannig ná líftíma eitthvað lengur.

Þegar upp er staðið eru aðstæðurnar kannski ekki svo alltof líkar þegar öllu er á botninn hvolft, a.m.k. ekki eins líkar og ég hélt í upphafi. Ég kem nefnilega ekki Samtökum um kvennalista inn í litróf dagsins í dag og ekki Frjálslynda flokknum í litrófið ´87. En ef líkindin eru til staðar þá verður ríkisstjórn D, B og Sf starfhæf í rétt ár og síðan B og Sf með einhverjum frekari stuðningi í framhaldi af því. Var svo að heyra af væntanlegu framboði í NA kjördæmi (Eyjafirði) núna rétt áðan í nafni Alþýðuflokksins. Ein líking þá til viðbótar enn, sérframboð að hætti Stefáns Valgeirssonar, þó úr öðrum flokki sé nú á dögum.

Svona geta hugsanir manns verið skemmtilegar (að því að manni sjálfum finnst) á stundum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband