17.2.2007 | 10:48
Sveitasæla
Nú er liðin rétt vika síðan við Salbjörg dóttir mín komum heim úr hálfsmánaðar ævintýraferð að hennar mati. Við gerðumst nefnilega bændur í hálfan mánuð, á alveg þokkalegasta búi hjá systur minni og mági í Langadal. Ég rifjaði upp mína gömlu bændatakta og sá um búreksturinn, með dyggri aðstoð sona þeirra, á meðan þau tóku sér loksins almennilegt frí. Þau fögnuðu nefnilega bæði stórafmæli nú nýverið og við hjónin vissum ekki hvað við ættum að gefa þeim í tilefni þess. Úr varð að afmælisgjöf okkar til þeirra var gjafabréf á vinnu ef þau tækju sér frí. Flott hugsaði ég. Ég hlýt að ráða við búskapinn í nokkra daga, og var meira en til í þessa gjöf. Viku eftir að gjöfin var afhent hringdi mágur minn í mig til að rukka um hana, eins hógværlega eins og honum einum er lagið, og tjáði mér að nú væru þau búin að ákveða hvenær fríð þeirra yrði. Ekkert mál, hvert á að fara spurði ég. Ja, við ætlum að fara til Kanarí í tvær vikur núna fljótlega. Gúlp (og öll þessi svipbrigði sem má sjá í Andrésblöðunum). Gjöf er gjöf og við loforð skal standa og ánægður var ég ákaflega með þessa ákvörðun þeirra því á þessu fríi þurftu þau sannarlega að halda. Gott að geta orðið að liði við að láta það rætast.
Ákveðið var að við Salbjörg yrðum alfarið í sveitinni en Eyhildur, yngri dóttir okkar hjóna, yrði eitthvað hjá áum sínum sem og vinum okkar eftir nánara samkomulagi þar um. Hún var talin of lítil til að geta verið alfarið í sveitinni hjá okkur Salbjörgu. Anita varð síðan að sinna sinni vinnu og yrði síðan hjá okkur helgarnar á milli vinnutarna.
Þvílík upplifun sem þessi hálfi mánuður var hjá Salbjörgu. Erfitt að lýsa því í orðum svo myndrænt var það í raun og margar sögur hægt að segja um það en þær koma kannski bara seinna svona ein og ein. En fyrsta kvöldið sem við fórum í verkin var hún auðvitað svolítið hrædd því hún hafði ekki verið í svo miklu návígi við dýr af þessari gerð nema þá hestana sem við eigum. Hræðsla þessi var fljót að fara varðandi kindurnar en lengri tíma tók fyrir hana að venjast kúnum. Fyrsta skiptið í fjárhúsunum endaði til dæmis á þann veg að hún þurfti að kyssa kettina tvo bless áður en hún fór heim og það var svo sem allt í lagi fyrir mér ef hún næði þeim en ég stoppaði hana í því að kyssa allar tvöhundruð og eitthvað kindurnar líka bless. Ég sá fram á að vera í húsunum fram á morgun með því áframhaldi og tjáði henni að kindunum væri alveg sama þó það væri bara kallað bless til þeirra allra í einu. Það dugði, sem betur fer, og við komumst heim á skikkanlegum tíma fyrir vikið.
Góð byrjun á góðri ferð, meira um þetta seinna svona inn á milli þjóðfélagsnöldurs míns. Allt í lagi að hafa smá léttleika með, er það ekki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.