Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Dagurinn í dag

Við skruppum í höfuðstaðinn í dag, þ.e.a.s. höfuðstað norðurlands. Vorum komin þar rétt fyrir hádegi og byrjuðum á því að fá okkur að borða. Lagt var af stað með hvíta jörð í forgrunni því það snjóaði hér í Reykjadalnum í nótt, ekki mikið svo sem en aðeins samt. Það tók síðan upp í dag og var orðið autt í kvöld þegar heim var komið.

Eftir hádegið fór ég síðan í Bogann og dæmdi eins og einn knattspyrnuleik. Þór/KA - ÍR í hinum víðfræga Lengjubikar. Þetta eru líklegasta tvö frægustu kvennaliðin, a.m.k. þau umtöluðustu í haust vegna kærumála þeirra í milli vegna umspils um sæti í efstu deild.

Leikurinn var ágætur, bara ágætlega spilaður og prúðmannlega. Enginn hasar í áhorfendum heldur, ekki eins og var í Róm í gærkvöldi. Svo fór að Þór/KA vann 6-1 og lítið meira um það að segja.

Stoppuðum við síðan aðeins lengur á Akureyri og héldum síðan heim á leið hvar við vorum komin um átta leytið. Fínn tími til að segja stelpurnar beint í rúmið og slappa síðan aðeins af.

Sem sagt, ágætis dagur.


Veiðihár

Ég leit aðeins af dætrum mínum tveimur seinnipartinn í gær eftir að við komum inn úr útiverunni okkar. Þær voru staddar í herbergi Salbjargar (þeirrar eldri) og voru að dunda sér þar við leik eða eitthvað í þá áttina.

Eftir stutta stund kom Salbjörg hlaupandi fram til mín. "Pabbi, pabbi, veistu hvað? Eyhildur er með veiðihár". Veiðihár, spurði ég frekar hissa. "Já, ég teiknaði á hana veiðihár". Og viti menn, hún var búin að teikna þessi líka fínu veiðihár framan í systur sína sem líkaði það bara nokkuð vel.

Þær fara í strangari gæslu hjá mér núna það er alveg á hreinu.


Frábært veður

Hér er ákaflega gott veður í dag og nýttum við Eyhildur okkur það og tókum góðan göngutúr í morgun. Vorum rúmlega tvo klukkutíma á labbinu, fórum uppá pósthús og í Sparisjóðinn. Á leiðinni þaðan komum fórum við á íþróttavöllinn og gengum einn hring þar. Ég hef aldrei verið jafn lengi að fara þessa 400 metra en það verður auðvitað að takast með í reikninginn að Eyhildur er bara rétt að skríða í 11 mánaða aldurinn og hún eiginlega réð hraðanum á okkur.

Veðrið í gærkvöldi var síðan ekki síðra. Stillt og heiðskýrt þannig að maður gat gleymt sér við að skoða stjörnurnar og norðurljósin.

Mjög endurnærandi svo ekki sé meira sagt.


Leiðindaveður

S3500063Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að það gengur leiðindaveður yfir landið núna. Veður hefur verið vont vestantil á landinu og versnar óðum hér norðanlands. Víkurskarðið ófært, reyndar eins og það verður alltaf þegar eitthvað verður að veðri og færð. Mikið verður nú almennilegt þegar Vaðlaheiðargöngin verða orðin að veruleika.

S3500062

Sú litla sefur nú samt sem áður vært úti við þrátt fyrir snjókomu og fjúk. Annars er allt við það sama hér á bænum. Ástandið eins og verið hefur undanfarna daga og stelpurnar óðum að ná sér eftir veikindi og kvef.


mbl.is Ófært um Víkurskarð og Holtavörðuheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnir dagar

Þeir geta verið og eru reyndar oftast misjafnir dagarnir hvað varðar elju, þrek og dugnað. Það liggur játning í þessu auðvitað. Dagurinn í dag hefur ekki verið neitt sérstakur verð ég að segja. Byrjaði ágætlega og útivistin fyllti mann þreki eins og ég vissi svo sem fyrir fram.

Er líða tók á daginn varð hann nú frekar endaslepptur og rislítill. Bar þar auðvitað mest eða eingöngu á minni elskulegu öxl sem setti mann alveg úr lagi. Pokinn góðkunni frá Þrúði drepur það og þá er bara að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði eins og þar stendur, það verður ekki verra sem á eftir kemur.


Ofan gefur snjó á snjó

Nú maldar snjónum niður hér í Reykjadalnum en í stillu samt þannig að veður er með ágætum. Við Salbjörg ætlum að nýta okkur tækifærið meðan Eyhildur sefur og bregða okkur út, ætlum reyndar að fara niður á íþróttavöll okkur til heislubótar og endurnæringar.

Mér finnst alveg kjörið að bregða mér í góðan göngutúr í veðri sem þessu og næra huga og sál. Kannski kemur maður endurnærður seinnipartinn með einhverja góða færslu, hver veit.


Goðsögnin lifir

Löngum hefur verið sagt að ef þú heyrir ekki í börnunum þínum þá eru þau að gera eitthvað af sér. Ég hef aldrei verið neitt rosalega viss um þetta enda heyrðist aldrei neitt í mér á yngri árum en samt var ég eiginlega aldrei að gera neitt af mér, þannig lagað.

En svo komst ég að því í seinustu viku að goðsögnin um þetta er sönn og lifir góðu lífi.

Skömmu eftir hádegi í síðustu viku, þegar yngri dóttirin var komin út í vagninn sinn og svaf þar værum blundi, var ég í rólegheitunum með þeirri eldri. Fljótlega tilkynnti hún mér það að nú væri hún að fara að taka til í herberginu sínu og vildi að ég færi eitthvað annað. Ég var ákaflega sáttur með þetta rúmlega þriggja ára "kríli" og settist niður við lestur. Hún setti spólu með Dýrunum í Hálsaskógi í segulbandstækið og byrjaði að taka til. Fljótlega veitti ég því eftirtekt að hún hafði hækkað svolítið í tækinu en um leið heyrðist ekkert frá henni. Ég var að spá í að gera athugasemd við tónhæðina hjá henni en þá var hún svo almennileg að loka hurðinni inn til sín og ég spáði ekkert meira í það. Hélt bara áfram að lesa. Leið nú og beið og sú yngri vaknaði þannig að ég tók hana inn og í framhaldi þess ákvað ég að athuga hvort sú eldri vildi nú ekki leika aðeins við hana.

Ég hélt því innreið mína inn í herbergið en þegar inn kom sá ég Salbjörgu hvergi. Hmm, en þegar ég litaðist betur um sá ég hvar fæturnir á henni lágu út undan kojunni hennar. Hvað ertu að gera spurði ég. EKKERT var svarið. Allt í lagi, sagði ég. Viltu ekki koma og leika aðeins við Eyhildi? Jú, veii. Undan kojunni kom hún en um leið kippti hún annarri hendinni aftur fyrir bak á sér. Hvað ertu með, spurði ég. EKKERT, kom aftur. Má ég sjá, spurði ég enn. AAAAA var svarað og snúið upp á sig. En það varði ekki lengi. Þá kom í ljós að mín hafði fundið "sleikjóhreiðrið" sem geymt var til laugardags og farið svona ákaflega skemmtilega í kringum hlutina til að næla sér í einn. Það var sem sagt ekki nóg að láta mig ekki sjá til sín heldur þurfti að loka hurðinni, hækka í segulbandstækinu og skríða undir koju til að komast upp með litla "ránið".

Það sem sagt heyrðist ekkert í henni og hún var að gera eitthvað af sér, bæði að mínu viti og sínu.


Fyrstu skrefin

Nú er hægt að sjá fyrstu skrefin hennar Eyhildar en hún er nú farin að spígspora um húsið í framhaldi af 9 mánaða afmælinu sínu. Myndbandið ætti að vera hér til hliðar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband