Færsluflokkur: Tónlist
15.2.2008 | 23:29
Texti dagsins
Er hægt að setja kreppu manns í betri búning?
Aaaaææææehh
Kominn dagur, fer á fætur
Í eldhússkápnum enginn biti ætur
Fæ mér kaffi ..... anei, það er búið
Lífið er einfalt en samt svo snúið
Ekki óskabyrjun dagsins, en það versnar enn.
Háið í tagli en orðið gisið
Lifrin í klessu, lélegt brisið
Á sossunum eins og flestir Danir
Kominn með ístru og ristruflanir
Það er nefnilega það. Þetta er einn af textum síðasta árs, algjör snilld. Og svona í restina innan úr miðju lagi:
Er hvorki lengur hipp né kúl
Og hlusta einn á Rúna Júl
Spurningin er svo hvaða hljómsveit og hvaða lag?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2007 | 23:17
Ekki beint áhugamál
Tónlist er ekki beint áhugamál hjá mér en samt hef ég nokkuð gaman af tónlist. Reyndar rýni ég mikið í texta og spái nokkuð í þá út frá ótrúlegustu sjónarhornum. Góð melódía með góðum texta er ákaflega áhugaverð samsetning, málið er bara að "góður" texti nær yfir svo fjölbreytt svið hjá mér að ég gæti aldrei útskýrt það til fulls sjálfsagt. Textarnir spanna tímabil allt frá Kolbeini Tumasyni til Megasar svo eitthvað sé sagt til útskýringar. Hitti Megas reyndar einu sinni og spjallaði aðeins við hann. Það er eitt það skrýtnasta en um leið með áhugaverðari samtölum sem ég hef átt um ævina. Það sama hef ég að segja af Páli Óskari, hitti hann einu sinni og get sagt það sama um samtal okkar þó á annan hátt væri. Ef ég mætti velja hvaða erlendu tónlistarmenn ég gæti hitt myndi ég velja hljómsveitina "the Corrs" held ég.
Plötu/diskasafnið mitt er þónokkuð fjölbreytt þó ekki sé stórt í sniðum. Þar er að finna allt frá karlakórum til hörðustu rokkbanda og allt þar á milli. Held reyndar mismikið uppá diskana eins og gengur og gerist sjálfsagt. Hef spilað suma það mikið að ég er á þriðja eintaki þeirra eins og er. Sumum hef ég týnt og einstaka hefur verið nappað af mér. Engum þeirra sé ég jafn mikið eftir og "Þessu stóra svarta" með Sniglabandinu. Ég gæfi mikið fyrir að eignast hann aftur.
Framtak Rásar 2, að vera með plötu vikunnar, bæði innlenda og erlenda, finnst mér lofsvert framtak og áhugavert í alla staði. Eins sú stefna hjá Óla Palla að spila allt sem hann fær sent a.m.k. einu sinni, mjög lofsvert. Reyndar finnst mér að sæma eigi hann Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar (sem og Andreu reyndar líka). En þrátt fyrir þónokkra grósku í íslenskum tónlistargeira í dag er fátt sem heillar mig þar akkúrat núna. Helst er það B.Sig og Sprengjuhöllin og svo er Megas svo sem ágætur. Verst með hann að hann er svo agalega mikið í tísku þessa dagana. Jú og svo finnst mér ferskur blær á Jónasi Sigurðssyni, fyrrverandi Sólstrandagæja.
Það sama á við um erlenda tónlistarflóru í dag, þar er fátt sem vekur sérstakan áhuga minn af því sem er að gerjast í dag. Eiginlega bara ekki neitt þegar ég renni yfir sviðið þar. Allt eins, matreitt sérstaklega í neytendapakkningar með síðasta söludag og neysluleiðbeiningar meðferðis. Ekki spennandi.
Nóg um tónlist að sinni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2007 | 00:08
Sjö aldir rokksins
Ég hef undanfarnar vikur verið að fylgjast með ákaflega skemmtilegum heimildamyndaflokki,sem nefnist "Seven ages of rock" og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um rokksöguna. Ég sit alveg límdur yfir þessum þáttum þó svo að ég sé ekki endilega þekktur fyrir að vera mikill tónlistarmaður. Kannski það sé söguáráttan mín sem veldur.
En hvað um það, ég hvet alla áhugamenn, bæði um sögu og tónlist að reyna að verða sér úti um þessa þætti til áhorfs. Það er vel þess virði.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)