Svíinn sem mótmælti og Suður Kórea

Það var hart tekið á sænska fangbragðamanninum um daginn, sem lagði bronspeninginn sinn á gólfið við verðlaunaafhendinguna. Sterk mótmæli við dómgæslu í undanúrslitaglímunni hjá honum og enn sterkari refsing af hálfu IOC.

En ætli svipaðir eftirmálar verði eftir hinn æsilega handboltaleik dagsins? Ég skrifaði aðeins um leik Rússa og Frakka, að hann hefði verið einn sá besti lengi en leikur Noregs og Suður Kóreu í morgun sló hann eiginlega út.

Þetta átti eiginlega að vera komið hjá norska liðinu, ein mínúta eftir og með þriggja marka forystu. En að láta svo jafna hjá sér á þessari mínútu og vinna svo samt með einu er svakalegt. Ég er reyndar á því að markið sé gilt þó svo að DR lýsendur vilji ekki unna Norðmönnum því (þeir eru jú ríkari og hafa ekkert með þetta að gera). Helstu rök þeirra fyrir ógildingu marksins er að norsku áhorfendurinr hafi ekki fagnað nægilega mikið þegar það var skorað og því hljóti það að vera ógilt.

En að efni fyrirsagnarinnar. Mótmæli Suður Kóreu voru í kjölfar þessa svekkelsis sterk verður að segjast þó svo að þau hafi ekki verið brjálæðisleg. Það voru þau heldur ekki hjá sænska fangbragðamanninum við verðlaunaafhendinguna. Kóreska liðið, starfsmenn þess og þjálfarar neituðu að yfirgefa svæðið. Vildu meina að það væri eftir framlenging af leiknum og neituðu alfarið að taka mark á úrskurði frönsku dómaranna. Auk þess áttu sér stað heilmiklar viðræður við starfsmenn leiksins á ritaraborðinu og eftirlitsmenn.

Það var svo ekki fyrr en eftir tæplega hálftíma að þeir létu sér segjast og yfirgáfu höllina. Þó er reiknað með frekari mótmælum af þeirra hálfu.

Mér finnst þetta svipað þó ekki hafi verið um verðlaunaafhendingu að ræða, sterk mótmæli við ákvarðanir dómara og þar sem IOC tók mjög harkalega á þeim sænska þarf nefndin að skoða þetta atvik alvarlega.

Svo í takt við þetta þá finnst mér kærur Spánverja og Ítala varðandi siglingakeppnina vera orðnar í svipuðum gír og þetta þó með aðeins öðrum formerkjum sé.

Annars var kosning meðal íþróttamannanna í dag um sæti í "Athletes’ Commission of the International Olympic Committee" til næstu átta ára. Kosningunni fylgir líka aðild að sjálfri IOC. Fyrir mér var þekktasta nafnið af þeim fjórum sem kosningu hlutu Alexander Popov, rússneski sundmaðurinn. En stóra fréttin í þessari kosningu virðist vera að Wilson Kipketer hlaut ekki kosningu en kosið var á milli 29 aðila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband