Handboltaskandall

Það hefur oft verið sagt að það sé lengra út á land frá höfuðborginni en til hennar þaðan.

Um síðustu helgi fór meistaraflokkur Völsungs í handknattleik karla í keppnisferð suður á land en liðið tekur þátt í utandeildinni í vetur. Keppt var við Selfyssinga á föstudagskvöldið en á laugardaginn átti að etja kappi við Hauka í Hafnarfirðinum (það lið þeirra sem spilar í utandeildinni). Þegar Vöslungsmenn mættu á svæðið komu menn í íþróttahúsinu af fjöllum varðandi leik í utandeildinni. Eftirfarandi lýsingu hef ég frá þjálfara Völsungs, Jóhanni Rúnari Pálssyni, á heimasíðu félagsins:

Eftir töluverða rekistefnu náðist í einhvern forsvarsmann Haukaliðsins og tjáði hann okkur að aldrei hefði staðið til að leika þennan leik við okkur. Við mættum bara flauta leikinn af og fara heim sælir og glaðir með okkar tvö stig. Jafnframt tjáði hann okkur að við mættum líka bóka önnur tvö stig í heimaleiknum þar sem þeir sæu sér ekki heldur fært að mæta þá einnig áttum við að vera sælir með það. Þetta náttúrulega er þvílík hneysa að varla er orðum á það komið

Þó að þetta sé í utandeildinni, sem er auðvitað ekki hátt skrifuð, þá er þetta döpur framkoma hjá forráðamönnum Hauka svo ekki sé meira sagt.

Hitt veit ég svo líka því Völsungur samdi við mig um dómgæslu á heimaleikjum félagsins í vetur, að það hefur verið ákaflega rólegt hjá mér í því starfi. Sunnanliðin mæta bara ekki nema í einstaka tilfellum norður. Selfoss mætti á Húsavík í haust og ÍH kemur annað kvöld. Önnur lið eru annað hvort með frestun (ótímabundna) á sína leiki eða eru búin að segja sig frá þeim.

Svei mér þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband