Færsluflokkur: Íþróttir

Flottar myndir úr leiknum

Reyndar líka úr Póllandsleiknum.

http://www.washingtonpost.com/wp-srv/sports/olympics/longterm/2008/beijing/photos/iceland.html

 


Ótrúlegur árangur

Hreint út sagt stórglæsilegur árangur.

Með fullri virðingu fyrir þeim sem á undan eru gengnir í starfi markvarðar þá hefur Björgvin verið síðasti bitinn í púsluspilið að þessu sinni.

Þar fyrir utan hafa allir haldið höfði og ég er ekki frá því að Ólafur sé búinn að stimpla sig sem besta handknattleiksmanns þjóðarinnar, fyrr og síðar.

Ekki það að það var allt til staðar sem til þurfti og ekkert gefið. Menn unnu fyrir þessu og einhvernveginn hafði maður alltaf á tilfinningunni í leiknum að þetta færi svona. Það var þetta gamla íslenska útlit á Spánverjunum allan leikinn.

Nú getur maður gert raunhæfa kröfu á gull.

Snilld.


mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfrýjun

Enn sættir suður kóreska liðið sig ekki við tapið í gær. Þrátt fyrir að IHF sé búið að úrskurða lokatölur leiksins endanlegar er haldið áfram.

Búið er að áfrýja niðurstöðu IHF og þá verða menn að vera með snör handtök því úrslitaleikirnir eru á morgun.

Íþróttadómstóllinn alþjóðlegi er reyndar til staðar á OL því rétta átti í dag í máli Ítala og Spánverja á móti Dönum í siglingamálinu en því var frestað til morguns því kalla á þjálfara Dananna til sem vitni og hann var farinn heim.

En í raun finnst mér þetta of mikið. Þó mikið sé í húfi þá verða menn að láta sér segjast og halda áfram.

Sem var svo eitthvað sem Danirnir gerðu ekki í handboltanum. Voru bara súrir og leiðinlegir og notuðu orð eins og skidt og lort.

Svei mér þá.


Svíinn sem mótmælti og Suður Kórea

Það var hart tekið á sænska fangbragðamanninum um daginn, sem lagði bronspeninginn sinn á gólfið við verðlaunaafhendinguna. Sterk mótmæli við dómgæslu í undanúrslitaglímunni hjá honum og enn sterkari refsing af hálfu IOC.

En ætli svipaðir eftirmálar verði eftir hinn æsilega handboltaleik dagsins? Ég skrifaði aðeins um leik Rússa og Frakka, að hann hefði verið einn sá besti lengi en leikur Noregs og Suður Kóreu í morgun sló hann eiginlega út.

Þetta átti eiginlega að vera komið hjá norska liðinu, ein mínúta eftir og með þriggja marka forystu. En að láta svo jafna hjá sér á þessari mínútu og vinna svo samt með einu er svakalegt. Ég er reyndar á því að markið sé gilt þó svo að DR lýsendur vilji ekki unna Norðmönnum því (þeir eru jú ríkari og hafa ekkert með þetta að gera). Helstu rök þeirra fyrir ógildingu marksins er að norsku áhorfendurinr hafi ekki fagnað nægilega mikið þegar það var skorað og því hljóti það að vera ógilt.

En að efni fyrirsagnarinnar. Mótmæli Suður Kóreu voru í kjölfar þessa svekkelsis sterk verður að segjast þó svo að þau hafi ekki verið brjálæðisleg. Það voru þau heldur ekki hjá sænska fangbragðamanninum við verðlaunaafhendinguna. Kóreska liðið, starfsmenn þess og þjálfarar neituðu að yfirgefa svæðið. Vildu meina að það væri eftir framlenging af leiknum og neituðu alfarið að taka mark á úrskurði frönsku dómaranna. Auk þess áttu sér stað heilmiklar viðræður við starfsmenn leiksins á ritaraborðinu og eftirlitsmenn.

Það var svo ekki fyrr en eftir tæplega hálftíma að þeir létu sér segjast og yfirgáfu höllina. Þó er reiknað með frekari mótmælum af þeirra hálfu.

Mér finnst þetta svipað þó ekki hafi verið um verðlaunaafhendingu að ræða, sterk mótmæli við ákvarðanir dómara og þar sem IOC tók mjög harkalega á þeim sænska þarf nefndin að skoða þetta atvik alvarlega.

Svo í takt við þetta þá finnst mér kærur Spánverja og Ítala varðandi siglingakeppnina vera orðnar í svipuðum gír og þetta þó með aðeins öðrum formerkjum sé.

Annars var kosning meðal íþróttamannanna í dag um sæti í "Athletes’ Commission of the International Olympic Committee" til næstu átta ára. Kosningunni fylgir líka aðild að sjálfri IOC. Fyrir mér var þekktasta nafnið af þeim fjórum sem kosningu hlutu Alexander Popov, rússneski sundmaðurinn. En stóra fréttin í þessari kosningu virðist vera að Wilson Kipketer hlaut ekki kosningu en kosið var á milli 29 aðila.


Það má fá lánað á OL ..... og þó, kannski ekki

Það er þetta með gullverðlaunin í 49´er siglingakeppninni á OL. Danirnir voru kærðir af Spánverjum og Ítölum en þeirri kæru var vísað frá. Þá var haldið að málinu væri lokið en svo var nú ekki. Spánverjar og Ítalir hótuðu að halda kæru sinni til streitu og fara með málið fyrir alþjóðta íþróttadómstólinn og svo loks í gærkvöldi (eða öllu heldur í nótt) létu þeir verða af þeirri hótun sinni.

Þetta finnst Dönum ákaflega mikill skortur á Olympíuanda og eru þétt studdir af Þjóðverjum, sem urðu í öðru sæti í keppninni.

Ég er sámmála þeim. Hvað er að því að fá lánaðan bát. Kannski voru það bara Spánverjar sem brutu mastrið hjá Dönum? Nei, frekar langsótt. En þetta lán Króata á bátnum vann þeim inn smá kredit hjá Dönum þannig að þeim er ekki alveg slátrað útaf handboltanum. Reyndar vann svo Króati helstu borðtennisstjörnu þeirra Dana í morgun og það voru þeir sko ekki sáttir með.

Annars gengur þeim ákaflega illa á OL og fáir ljósir punktar hjá þeim. Það hefur gefið af sér margar skýringar og sumar þeirra verulega íslenskar. Spaugilegt.

Ég held að aðalmistökin hjá þeim fyrir leikana hafi verið almennur hroki.

Það er ekki gott veganesti.


Merkilegt

Ég veit alveg að handboltinn er merkileg íþróttagrein þar sem ekkert lið á neitt gefið fyrirfram (Danir hafa svo sannarlega rekið sig á það í dag).

En miðað við að annar riðillinn var með bæði heimsmeistara og Evrópumeistara innanborðs þá virðist það hafa verið slakari riðillinn.

Ísland var eina liðið úr sínum riðli sem vann sinn leik í 8-liða úrslitum þar sem bæði heimsmeistararnir og Evrópumeistararnir eru fallnir út. Og liðin úr A-riðlinum unnu sína leiki svona frekar örugglega.

Merkilegt.


"skilinn eftir"

Úrslitahlaupið í 200m fyrr í dag minnti mig á það þegar ég hljóp einu sinni 110m grind í gamla daga. Var á næstu braut við Jón Arnar og strax við fyrstu grind var ég kominn með tilfinninguna "skilinn eftir".

Held að flestir hinir þarna í dag hafi alveg haft möguleika á svoleiðis tilfinningu líka. Það leit að minnsta kosti þannig út í sjónvarpinu.

Hrikalega flott hlaup hjá hjá jaxlinum.


.... og þar hafa þeir fundið fjórtán

Danirnir eru búnir að taka Íslendinga í sátt eftir leikinn í riðlakeppninni og vilja taka á okkur í úrslitaleiknum. Þeir voru samt pínu skondnir lýsendur DR í leikslok áðan.

.... þessi litla handboltaþjóð komin í undanúrslit. Bara 2-300 þúsund manneskjur og þar hafa þeir fundið fjórtán sem geta spilað handbolta.....

Alltaf stutt í hlutina hjá þeim en þeir voru sáttir með Ísland samt. Spurning samt um að leiðrétta fjölda spilara. Svo eyddu þónokkrum tíma eftir leik í Ólaf Stefáns. og Snorra Stein.

Annars er þetta framúrskarandi árangur þar sem mér fannst bera hæst mjög góður leikur Björgvins í markinu.

Óskar Bjarni á mikið í þessum árangri er ég viss um, framúrskarandi þjálfari með mikla innsýn og hugsun.

Glæsilegt og umfram allar væntingar.


mbl.is Ísland í undanúrslit á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími 100m grindahlaups er liðinn

Það er kominn tími til að hætta með keppni í 100 metra grindahlaupi kvenna og í staðinn lengja hlaupið í 110 metra, rétt eins og hjá körlunum. Um leið á líka að hækka grindurnar, þær eru orðnar of lágar.

Konurnar eru bara farnar að hlaupa það hratt að skrefakerfið er hætt að passa á milli grinda og hæð grindanna (of lágar) gerir það að verkum að greinin í dag er nánast bara hlaup en ekki grindahlaup.

Þetta er í raun ekki róttæk breyting, meira í ætt við leiðréttingu.

Það held ég.


Kínversku fiskikerlingar

Einn skemmtilegasti handboltaleikurinn sem maður hefur séð á OL fram að þessu var í dag. Það var leikur Rússa og Frakka í átta liða úrslitum kvenna. Tvíframlengdur en endaði svo að lokum með eins marks sigri Rússa.

Ef fyrirsögninni var nú eiginlega beint að lýsendum leiksins hérna á DR1. Það sem ég hef tekið eftir fram að þessu er að lýsendur almennt finnst mér "halda með" einhverjum eða einhverju liði og svo var einnig í dag. Þá er ég ekki að tala um að fylgjast sérstaklega með sínu fólki og halda með þeim. Því hef ég tekið eftir bæði hjá Bretum og Þjóðverjum.

Fyrirsögnin var síðan eiginlega kveðjuorð þeirra í dag og var beint að dómurum leiksins. Þær áttu ekki sérstakan dag verður að segjast en eins slakar og þeir vildu vera láta er ekki rétt. Þeir héldu nefnilega með Frökkum og það þrátt fyrir að Emiliya Turey spili með Slagelse.

En leikurinn var skemmtilegur, með fínu spili á köflum, helling af mistökum og frábærri markvörslu. Bendi mönnum á að sjá hann sér til skemmtunar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband